SvanurinnSvanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna sem var komið á fót af Norrænu ráðherranefndinni árið 1989. Meginmarkmið Svansins er að draga úr umhverfisáhrifum af vörum eða þjónustu og auðvelda neytendum að velja umhverfisvænni kosti. Á Íslandi er Umhverfisstofnun umsjónaraðili Svansvottunarinnar og vinnur náið með skrifstofum Svansins á öllum Norðurlöndunum.

Til þess að vara eða þjónusta geti hlotið Svansvottun verður norræni Svanurinn að hafa mótað kröfur fyrir viðkomandi vöru- eða þjónustuflokk. Svanurinn er umhverfismerki af Týpu 1 samkvæmt ISO 14024 umhverfisvottunarstaðlinum og er einn af stofnmeðlimum Global Ecolabelling Network.

Kröfur Svansins tryggja að vottuð vara er betri fyrir umhverfið og heilsuna, með því að:

- skoða allan lífsferilinn og skilgreina helstu umhverfisþætti

- setja strangar kröfur um helstu umhverfisþætti sem skilgreindir hafa verið svo sem; efnainnihald og notkun skaðlegra efna, flokkun og lágmörkun úrgangs, orku- og vatnsnotkun, og gæði og ending

- passa að þekkt hormónaraskandi og ofnæmis- eða krabbameinsvaldandi efni séu ekki notuð

- herða kröfurnar reglulega þannig að Svansvottaðar vörur og þjónusta séu í stöðugri þróun