Kynnumst Þóru Birnu

Í samstarfi við Maríu Gomez og Þóru Birnu höfum við sett saman litakortið Heima med Flügger. Hér færðu að kynnast Þóru Birnu betur og litavalinu hennar þar sem hún skapar persónulegan stíl á fallega heimilinu sínu á Höfn í Hornafirði.

1. Segðu okkur aðeins frá bakgrunninum þínum

Ég heiti Þóra Birna og er að verða 27 ára. Ég bý á Höfn í Hornafirði með Níelsi manninum mínum og börnunum okkar þremur, Emilíu Þöll 5 ára, Reynari Þór 3,5 árs og Fanndísi Marý 1 árs. Ég vinn sem leiðbeinandi á leikskóla og Níels er málarameistari. Við fluttum úr Kópavoginum á heimaslóðir í lok 2018. Til að byrja með vorum við á leigumarkaðnum þar sem það var ekkert spennandi á fasteignamarkaðnum á þeim tíma.
Það var þá sem Níels fékk hugmynd að skoða það að byggja hús og þá fór boltinn að rúlla. Lóðavinna byrjaði um miðjan nóvember 2019 og vorum við flutt inn í maí 2020 og höfum verið að koma okkur hægt og rólega fyrir síðan.

2. Hefur þú alltaf haft áhuga á innanhússhönnun?

Ég var farin að spá í hvernig ég vildi hafa hlutina á unglingsárum en það má segja að áhuginn hafi kviknað af alvöru upp úr 2014 þegar við Níels fórum að búa saman.

3. Hvar færðu innblástur fyrir heimilið þitt?

Ég leitaði mikið í Hús & Híbýli ásamt því að skoða allskonar fagurkera á samfélagsmiðlum, þá aðallega Instagram og Pinterest, og geri það enn.

4. Hvað er mikilvægt þegar breyta á húsi í heimili?

Litir og áferð eru grunnurinn að því að breyta öllum húsum í heimili. Húsið á að taka á móti manni þegar maður kemur heim eftir langan dag og láta manni líða vel. Við vorum til að mynda búin að velja liti í allt húsið áður en við fluttum inn, liti sem okkur fannst mjög fallegir og finnst enn, en þegar við vorum búin að koma okkur fyrir með húsgögnum og öllu saman þá fundum við að okkur langaði í hlýrri litapallettu. Við breyttum um lit í hjónaherbergi, 2 barnaherbergjum, forstofu og liturinn í alrýminu var tónaður til og gerður brúnni og hlýlegri. Þetta finnst mér allt ákveðinn liður í því að gera hús að heimili, því þú í raun hámarkar þá vellíðan sem þú getur fengið út úr því að vera í rýminu með því að gera það að þínu.

5. Hvernig ákváðuð þið að hafa nýja húsið þitt eins og þið gerðuð? Hvað var ykkur mikilvægt í hönnun hússins?

Við lögðum upp með það í byrjun að fá sem besta nýtingu út úr þeirri teikningu sem við völdum í upphafi. Henni var talsvert breytt að innan og Haraldur í Örk EHF fær gott hrós fyrir þolinmæði og góða þjónustu meðan á því stóð! Við til að mynda færðum til veggi, bættum við barnaherbergi, minnkuðum bílskúr og tókum út geymslu, stækkuðum hjónaherbergið, bættum við fataherbergi og baðherbergið stækkaði 3 sinnum. Þetta eru nokkrar af þeim breytingum sem við fórum í á upprunalegu teikningunni til þess að gera það að okkar. Eins praktískt og um leið skemmtilegt og möguleiki var. Teikninguna bárum við svo undir nokkra vini og vandamenn áður en tekin var endanleg ákvörðun um að koma húsinu í framleiðslu.

6. Þegar þú velur liti, hvað skiptir þig mestu máli?

Það sem mér finnst skipta máli í litavali er að þeir tóni við gólfefni og innréttingar í húsinu. Litirnir eiga að mynda góðan grunn sem maður byggir svo á, með húsgögnum og fallegum innanstokksmunum.

7. Hvað með litavalið fyrir hin rýmin, eins og til dæmis svefnherbergin?

Það finnst mér í rauninni bara vera sama nálgun. Manni á að líða vel í svefnherberginu sínu, það á að færa manni ró og slökun. Hjónaherbergið er dökkt því okkur finnst áberandi betra að sofa í dökku herbergi heldur en ljósu. Barnaherbergin endurspegla talsvert persónuleika og uppáhalds liti hvers barns, með þetta þægilega andrúmsloft að leiðarljósi.

8. Af hverju valdir þú málninguna sem þú valdir hjá Flügger?

Ég vildi fyrst og fremst gæði. Eins og áður hefur komið fram er maðurinn minn málarameistari og velur Flügger í sinni vinnu. Hann fær því mitt traust þegar velja á góð efni sem henta í hvert sinn. Ég er með þrjú lítil börn á heimilinu, svo það er mikill umgangur og var því nauðsynlegt að fá slitþolna málningu sem auðvelt væri að þrífa…sem þarf að gera reglulega á þessu heimili! Dekso 1 Ultramat hefur alla þá eiginleika sem mér fannst skipta máli. Mött, falleg og slitþolin.

9. Ertu með einhver ráð til þeirra sem eru að byggja?

Að gefa sér góðan tíma í teikninguna, ekki vera feimin/n við að breyta oft ef maður er ekki 100% sátt/ur. Þetta er stærsta fjárfesting sem flestir fara í og þá má eyða tíma og vanda valið þegar kemur að öllu því sem fylgir því að byggja og innrétta heilt hús. Fáðu fagmenn í öll þau verk sem þú ekki þekkir eða kannt, því það er dýrt sport að “fúska” í nýju húsi.

10. Myndir þú fara aftur í að byggja?

Já algjörlega. Eins krefjandi og erfitt þetta var á tímabili að þá var þetta verkefni eitt það skemmtilegasta sem ég hef tekið að mér. Ég væri reyndar líka alveg til í að prufa að taka eldra húsnæði í gegn, ég fæ vonandi að gera það einn daginn.


Smelltu hér til að sjá nýja litakortið okkar Heima með Flügger
Smelltu hér fyrir innblástur frá Þóra Birna